Heitir réttirÉg veit fátt sumarlegra en eitthvað gott á grillið og ostakennt kartöflugratín með því. Ég var sólgin í kartöflugratín, bæði kalt og heitt og borðaði það uppúr fatinu eða boxinu.
Ég hef verið að fikta við að gera vegan kartöflugratín og seinast þegar ég bjó það til sagði Kjartan við mig að ég mætti ekki halda þessari uppskrift frá heiminum, hún væri of góð!
Svo aðal áherslan í þessari færslu er þetta dýrindis kartöflugratín. Annars er sveppasósan mjög góð og marineringin fyrir tófúið mjög sumarleg og góð á grillið.
Tek það fram að mér finnst best þegar gratín eru frekar blaut og sósukennd en ef þið viljið hafa gratínið þykkra er ekkert mál að þykkja það 🙂
Hráefni í kartöflugratín:
15 meðalstórar kartöflur
500 ml Oatly matarrjómi eða annar jurtarjómi
1 púrrulaukur
2 dl Cheddar Follow Your Heart vegan ostur
salt og pipar
Hráefni í sveppasósu:
1 dl kasjúhnetur
400 ml kókosmjólk
2 msk næringager
1 gulur laukur
1-2 hvítlauksgeirar
1/2 sveppateningur
3-4 dropar tabasco sósa
salt og pipar
Tófu marinering:
1 kubbur af pressuðu tófú
1 msk tamarisósa
1 msk liquid smoke
4 msk sólblómaolía
Dass af Reyktri papriku, Chipotle og salt&pipar.
Aðferð.
Best er að pressa tófúið daginn áður, skera í 4 stórar sneiðar og leggja í marineringu yfir nóttina.
Tófúið tekur ekkert svakalega langan tíma á grillinu svo best er að grilla það bara þegar gratínið er komið í ofninn.
1. Byrjið á því að sjóða kartöflurnar í potti og hitið ofninn í 190° blástur, ekki er nauðsynlegt að fullsjóða kartöflurnar en allavega mýkja þær vel.
2. Setjið í pott Oatly rjómann, púrrulaukinn, cheddar ostinn og leyfið malla. Salti bætt við og vel af pipar.
3. Takið síðan annan pott og byrjið að steikja sveppi og lauk uppúr blöndu af jurtasmjöri og olíu. Kryddið með salt og pipar.
Í blandara eða nutribullet setjiði kókosmjólk, kasjúhnetur, næringager og blandið þar til engir kekkir eru í.
Þegar sveppirnir og laukurinn eru orðnir mjúkir er kókósmjólkur-blöndunni blandað við, kryddað, sveppatening bætt við ásamt tabasco sósunni.
Þessu leyft að malla á meðan hitt er að verða tilbúið.
4. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær kældar í köldu vatni, skornar í sneiðar, raðað í eldfast mót, oatly púrrulauksblöndunni hellt yfir og restinni af cheddar ostinum úr pakkanum stráð yfir. Ég pipraði með grófri piparkvörn yfir.
Sett inn í ofninn þangað til osturinn ofaná er bráðinn.
5. Tófúið er grillað á meðan gratínið er í ofninum. Okkur fannst mjög gott að grilla einnig papriku til að hafa með.
Við bárum með þessu tómata, gúrku og grillaða papriku.
Vonandi njótiði 😀
-Anna Karen